Hjárómur | Silja Björk Huldudóttir 
HJÁRÓMUR ForsíðaMeðlimirVerkefni

Silja Björk Huldudóttir

Sópran

Silja hefur sungið frá blautu barnsbeini. Hún söng með skólakór Háteigsskóla á grunnskólaárum sínum og síðar með kirkjukór Háteigskirkju í nokkur ár. Þaðan lá leiðin í Háskólakórinn veturinn 1996-1997, en þá um haustið gekk hún til liðs við Mótettukór Hallgrímskirkju og söng með kórnum fram til vorsins 2003. Silja er nú félagi í Söngsveitinni Fílharmóníu auk þess sem hún hefur til margra ára skipað Litla kvartettinn ásamt Huldu B. Hákonardóttur og Þorgeiri Tryggvasyni. Silja nam söng hjá John Speight og Þórunni Guðmundsdóttur á árunum 1997-2003.

Á sl. tveimur áratugum hefur Silja leikið í tæplega tuttugu leiksýningum hjá Hugleik og í um helming þeirra sungið á sviði, oftast bæði einsöng og í kórköflum. Af leikhlutverkum sem kröfðust mikils söng á sviði ber hæst að nefna hlutverk Bíbíar í óperuþykkninu Bíbí og blakan, sem Hugleikur hefur hér á landi m.a. sýnt í Deiglunni árið 1996, Kaffileikhúsinu 2002, Borgarleikhúsinu 2003, Þjóðleikhúskjallaranum 2006 og á alþjóðlegum leiklistarhátíðum í Litháen 2000, Rússlandi 2002 og Þýskalandi 2003, hlutverk Auðar í Undir hamrinum, sem sýnt var í Tjarnarbíói 2003 og á alþjóðlegum leiklistarhátíðum í Eistlandi 2004, Mónakó 2005 og Rússlandi 2006, og hlutverk Bellu í Jólaævintýri Hugleiks sem sýnt var í Tjarnarbíói 2005.

Silja hefur tekið þátt í flestum ef ekki öllum söngdagskrám á vegum Hugleiks, bæði sem kór- og einsöngvari. Þar á meðal eru Ég held ég sé að bresta í söng í Þjóðleikhúskjallaranum 1996, Þótt ótúlegt megi virðast er ég ekki laglaus í Möguleikhúsinu 1999 og Hugleikur brestur í söng í Þjóðleikhúskjallaranum 2006. Hún er einn af stofnfélögum kammerkórsins Hjáróms árið 2005 og hef sungið með hópnum æ síðan. M.a. troðið upp á jóladagskrám Hugleik, söngdagskrám Hugleiks sem og á þorradagskrá félagsins árið 2006 þar sem söngsveitin frumflutti Hávamálasvítu eftir Þorgeir Tryggvason.

Aftur í félagatal